Fréttir

RB – fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum

RB er í hópi fimmtán fyrirtækja sem nú í ágúst hlutu nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningin er veitt af Stjórnvísi, Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland.

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum var sett á laggirnar til að bæta eftirfylgni og efla leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Verkefninu er ætlað að veita öllum fyrirtækjum tækifæri til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda.

„RB hefur markað sér skýra stefnu í samfélagsábyrgð og að fylgja góðum stjórnarháttum. Við leggjum okkur fram við að axla ábyrgð á þeim áhrifum sem við höfum á fólk og umhverfi sem og að efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu. Það er okkur því mikil ánægja að hljóta viðurkenningu sem þessa,“ segir Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins.

Fyrirtækið hefur frá stofnun, árið 1973, borið ábyrgð á grunnstoðum greiðslumiðlunar Íslands og allt frá upphafi lagt áherslu á að rekstur innviða greiðslumiðlunar hér á landi sé í fremstu röð.