Fréttir

Níu ára risaverkefni við endamörk

Í apríl síðastliðnum var Sopra, nýtt innlána- og greiðslukerfi, gangsett hjá Arion banka. Senn líður að því að Sopra verði að fullu búið að taka við af 40 ára gömlum kerfum Reiknistofu bankanna en innleiðingin hefur verið eitt stærsta upplýsingatækniverkefni hérlendis á síðustu árum.

 

Reiknistofa bankanna (RB) hefur frá árinu 2012 unnið að innleiðingu á nýju innlána- og greiðslukerfi hjá fjármálafyrirtækjum landsins. Arion banki gangsetti kerfið í apríl síðastliðnum og á seinni hluta ársins verður kerfið innleitt hjá sparisjóðum, Kviku og Seðlabankanum. Hið nýja kerfi sem kallast Sopra, þróað af frönsku fyrirtæki, tekur við af 40 ára gömlum sérhönnuðum innlána- og greiðslukerfum Reiknistofu bankanna. Með fyrra kerfinu varð Ísland á sínum tíma fyrsta landið með rauntíma greiðsluvirkni.

 

Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB, segir að rauntímagreiðslumiðlunin og kröfupotturinn í stórtölvuumhverfinu hafi verið einstakt. „Gamla kerfið hefur nýst íslenska fjármálakerfinu rosalega vel en er þó orðið barn síns tíma. Það var erfitt að gera breytingar og aðlaga þetta heimasmíðaða kerfi í því síbreytilega umhverfi sem við lifum í. Allar breytingar á lögum og reglugerðum ásamt stofnun nýrra reikninga kröfðust mikillar forritunarvinnu. Þekkingin á kerfunum hefur einnig horfið að einhverju leyti með fólki sem hefur látið af störfum vegna aldurs. Nú erum við komin með staðlað alþjóðlegt kerfi sem eykur virkni og einfaldar alla vöruþróun. Þetta er svolítið eins og að fara úr gamaldags borðtölvu í iPad,“ segir Ragnhildur. Hún bætir við að RB og íslensk fjármálafyrirtæki muni nú njóta góðs af þróun á kerfi fyrir talsvert stærri markað en Ísland. Landsbankinn tók kerfið í notkun í lok árs 2017 og Íslandsbanki rúmu ári síðar en upphaflega stóð til að báðir bankarnir færu með kerfið í loftið í lok árs 2016.

 

„Það er risastórt verkefni að innleiða svona kerfi, sérstaklega að aðlaga þau að öðrum kerfum bankanna. Það tók mörg ár hjá hverjum banka að innleiða þetta. Í fyrsta fasanum, hjá Landsbankanum og Íslandsbanka, var vanmat hjá öllum sem komu að verkefninu á flækjustiginu innan bankanna og samspilinu við RB en heilt yfir myndi ég segja að þetta hafi gengið vel,“ segir Ragnhildur. Að baki innleiðingunni hjá öllum þremur bönkunum, Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka, liggja um 250.000 vinnustundir í vinnuframlagi starfsmanna RB, sem samsvarar 36 þúsund vinnudögum. Nær allir starfsmenn RB, sem eru 160  talsins í dag, hafa komið að verkefninu á einhvern hátt. Ragnhildur segir að innleiðingin hjá Arion hafi gengið vel, sér í lagi vegna reynslunnar við fyrri innleiðingar. Við ferlið þurfi að passa að mismunandi kerfi tali saman, undirbúa neyðaráætlanir og prófa gangsetninguna nokkrum sinnum. Starfsmenn þurfa að fylgja ítarlegri keyrslubók, nokkurs konar uppskriftarbók, sem er lykilatriði til að ná árangri í svona verkefni að sögn Ragnhildar. Einnig hafi verið heillavænlegt að fá inn hollenska fyrirtækið Data Excellence til að sjá um gagnaflutninginn í ferlinu.

 

Tækifæri í samstarfi

 

Í upphafi innleiðingar Sopra hamlaði einnig verkefninu talsvert að rekstur RB er háður skilyrðum frá Samkeppniseftirlitinu þar sem um er að ræða rekstur á sameiginlegu kerfi fyrir íslenska bankageirann. Ragnhildur segir að verkefnið hafi leitt í ljós hversu mikilvægt það var að fjármálakerfið getur unnið saman að stórum innleiðingarverkefnum. „Þegar skipt er út svona stóru kerfi þá er mikilvægt að bankarnir geti unnið saman að því. Vandamál sem koma upp hjá einum banka geta auðveldlega haft á aðra banka á markaðnum. Það eru því mikil tækifæri sem felast í því að vinna svona verkefni saman.“ Ragnhildur segir að Sopra-verkefnið hafi einkennt rekstur RB á síðustu árum. Samhliða þessu hafi RB innleitt nýtt suður-afrískt millibankakerfi hjá Seðlabankanum í október, sem var sambærileg tilfærsla úr stórtölvuumhverfinu. Jafnframt sé stefnt að því að útleiða fleiri eldri kerfi. „Við höldum svo áfram að vinna að því að einfalda og notendavæða tækniumhverfið og vonandi tökum við að okkur fleiri verkefni fyrir fjármálamarkaðinn á næstunni,“ segir Ragnhildur.

 

Viðtalið birtist í Viðskiptablaðinu þann 3.júní 2021 og var tekið af Sigurði Gunnarssyni blaðamanni hjá Viðskiptablaðinu (Sigurdur@vb.is)