Fréttir
Ísland vinnur stærstu netöryggisæfingu heims ásamt Svíþjóð!
27.04.2023
Nýlega lauk sameiginlegri netöryggisæfingu NATO, Skjaldborg (Locked Shields) 2023. Í ár tók Ísland þátt í fyrsta skipti í liði ásamt Svíþjóð.
En leikar fóru svo að sameiginlegt lið Svíþjóðar og Íslands gerði sér lítið fyrir og bar sigur úr býtum á netöryggisæfingunni! Fyrir Íslands hönd tóku þátt starfsmenn frá netöryggissveit fjarskiptastofu (CERT-IS), Landhelgisgæslu Íslands, Ríkislögreglustjóra, Seðlabanka Íslands, Reiknistofu bankanna og utanríkisráðuneyti Íslands.
Locked Shields er stærsta netöryggisæfing heims og tóku rúmlega 2.400 manns þátt frá 33 ríkjum – bæði aðildarríkjum NATO og samstarfslöndum eins og Svíþjóð.
Æfingin var sett upp sem keppni í að verjast hörðum netárásum óvinveittra aðila og stóð í tvo daga. Æfingin var haldin af öndvegissetri Atlantshafsbandalagsins í netvörnum í Tallinn en íslensku keppendurnir tóku þátt úr húsnæði sænska hersins í Enköping í Svíþjóð ásamt sænskum liðsfélögum okkar.
Það er reglulega gaman að okkar fyrsta þátttaka í slíkri æfingu hafi gengið jafnvel og er hún mikilvægur liður í að styrkja netvarnir Íslands.