Fréttir

Endalaus tækifæri og atvinnumöguleikar í kerfisfræði

Á 30 ára starfsferli sínum sem kerfisfræðingur hefur Svava Garðarsdóttir tekist á við ótrúlega fjölbreytt og skemmtileg verkefni. Á þeim tíma hefur hún fengið góða innsýn í ólíkar atvinnugreinar og einstaka hluta þeirra, t.d. fiskútf lutning, fjármálabókhald, afgreiðslukerfi verslana og lagerrekstur, svo eitthvað sé nefnt, en undanfarin sjö ár hefur hún starfað hjá RB. „Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um tölvunarfræði er fjölbreytileikinn. Þú ert í rauninni ekki að takmarka þig við einn afmarkaðan geira því að tölvur eru notaðar við allt, alls staðar. Þannig eru tækifærin endalaus.

Eitt af uppáhaldsverkefnum hennar var t.d. í fluggeiranum en þar kynntist hún flugvélaviðhaldi mjög vel þegar hún skrifaði kerfi sem hélt utan um varahluti í flugvélar og gaf til kynna viðhaldstíma þeirra út frá flugtímum.

Mjög fjölbreytt fag

Tölvunarfræðin er mjög fjölbreytt fag þar sem sviðin eru mörg að sögn Svövu. „Þetta snýst ekki eingöngu um forritun eina og sér, heldur er hönnun líka ríkur þáttur, bæði kerfishönnun og svo viðmótshönnun, greining og prófanir svo eitthvað sé nefnt. Þannig er hægt að fara út í ýmsa sérhæfingu kjósi maður slíkt.“ Hún segir atvinnumöguleikana vera mjög góða, eftirspurnin hafi verið mikil og sér ekki fyrir endann á því. „Þá er líka rétt að minnast á launin, sem eru vel yfir meðallagi góð. Ef við drögum þetta aðeins saman þá ættu þeir sem eru lausnamiðaðir og finnst gaman að leysa fjölbreyttar þrautir og fá sæmilega vel greitt fyrir það svo sannarlega að leiða hugann að tölvunarfræði.“

 

Góð fyrirmynd

Það er greinilegt að Svava kann vel við sig í starfi kerfisfræðings því áhugi hennar og eldmóður hefur heldur betur smitað út frá sér. „Það er gaman að segja frá því að bæði systurdóttir mín og dóttir hafa leiðst út í þennan geira og eru báðar tölvunarfræðingar. Dóttir mín fullyrðir að ég hafi verið hennar helsta fyrirmynd þegar kom að því að velja nám. Reyndar er pabbi hennar líka kerfisfræðingur svo að blessað barnið átti ekki undankomu auðið. Hún tók þetta inn með móðurmjólkinni og hefur hlustað á „úrlausn vandamála“ við kvöldverðarborðið alla sína tíð og nú er hún sjálf komin í lausnahópinn. Þar með er ekki allt upptalið því maður hefur einnig orðið þess valdandi að bæði tengdasonur og mágur leiddust út á þessa braut.“

RB er skemmtilegur vinnustaður að sögn Svövu og andrúmsloftið er mjög gott. „Ég myndi eiginlega segja að það sé bæði vinalegt og heimilislegt, þrátt fyrir að fjöldi starfsmanna sé á annað hundrað. RB er sneisafullt af snillingum með sérfræðiþekkingu, hvort sem um er að ræða tæknilegs eða fjármálalegs eðlis. Það er gott að leita til samstarfsfólks og allir eru boðnir og búnir til að ausa úr viskubrunni sínum.“