Fréttir
Friðrik valinn stjórnandi ársins
02.03.2018
Friðrik, forstjóri RB, var valinn stjórnandi ársins 2018 af Stjórnvísi og tók við viðurkenningu frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Þrír stjórnendur voru verðlaunaðir. Friðrik í flokki yfirstjórnenda, Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR í flokki millistjórnenda og Jóhannes Ingi Kolbeinsson, stofnandi Kortaþjónustunnar í flokki frumkvöðla.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með 3000 virka félagsmenn. Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru veitt árlega stjórnendum fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Félagar í Stjórnvísi tilnefna stjórnendur út frá viðmiðum sem sett eru hverju sinni. Í ár voru yfir 70 stjórnendur tilnefndir og vorum við hjá RB með tvær tilnefningar, Friðrik í flokki æðstu stjórnenda og Magnús Böðvar, framkvæmdastjóri Rekstrarlausna, í flokki millistjórnenda.
Úr umsögn dómnefndar
Sá sem hlýtur verðlaunin sem yfirstjórnandi fyrirtækis er vel að því kominn. Árið 2011 tók hann við sem yfirstjórnandi fyrirtækis í tæknigeiranum, sem ekki hafði tekið miklum breytingum í áranna rás, en byggði á mjög traustum grunni. Rekstrarformi þess hafði verið breytt í hlutafélag og ný stjórn kom að félaginu. Eitt fyrsta verk stjórnar var að ráða nýjan forstjóra. Frá árinu 2011 hefur fyrirtækið fengið ótal vottanir og viðurkenningar:
- Árið 2011 var ISO27001 vottun endurheimt (frá árinu 2009)
- Árið 2012 PCI vottun frá Visa og Master Card fyrir vinnslu kortaupplýsinga
- Árið 2014 var innleiddur áhættustýringarstaðallinn COSO. Áhættugreiningar eru orðnar hluti af DNA fyrirtækisins þannig að árlega eru framkvæmdar fleiri þúsundir áhættugreiningar.
- Árið 2016 tilnefning til Íslensku þekkingarverðlaunanna veitt af Félagi viðskipta og hagfræðinga
- Árið 2016 fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningin er veitt af Rannsóknarmiðstöð um góða stjórnarhætti við H.Í. Samstarfsaðilar rannsóknar-miðstöðvarinnar eru Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq og Samtök atvinnulífsins.
- Árin 2016 og 2017 valið sem Framúrskarandi fyrirtæki hjá Creditinfo.
Eftirfarandi lýsing er frá fyrrverandi samstarfsmanni og síðar viðskiptavin:
Friðrik er einhver “strategískasti” maður sem ég þekki. Hann borar ofan í hlutina til að skilja þá til hlítar, rannsakar og viðar að sér gögnum og býr til framtíðarsýn eða “stóru myndina” og byggir hana á gögnum og rökum. Hann er gríðarlega talnaglöggur en á sama tíma mjög næmur fyrir markaðsnálgun sem er mjög sérstök blanda. Hann fylgir hlutunum mjög vel eftir, er mjög kröfuharður við sjálfan sig og aðra og þó það blási á móti missir hann aldrei sjónar af endamarkinu. Friðrik er afskaplega ósérhlífinn, segir hlutina eins og þeir eru og stendur við orð sín. Hann hefur ástríðu fyrir því sem hann gerir. Hann hvetur fólkið sitt áfram og er mjög umhugað um að fólki líði vel í fyrirtækinu, sé vel upplýst og stolt af því sem það er að gera.
Eftirfarandi lýsing studdi tilnefningu Friðriks til verðlauna:
Friðrik hefur breytt RB mikið frá þeim tíma sem hann kom í fyrirtækið. RB er í dag fyrirtæki sem er að gera mjög miklar og stórar breytingar bæði með útskiptingu grunnkerfa bankanna og með tilkomu fyrstu farsímagreiðslulausninni sem millifærir beint af reikningi kaupanda yfir á reikning seljanda. Friðrik hefur einnig verið sterk rödd á markaði um þær breytingar sem munu koma með nýju greiðsluþjónustulögunum (PSD2) sem munu breyta fjármálamörkuðum eins og við þekkjum þá. Kjarninn var með áhugaverða úttekt á fjármálaþjónustu á Íslandi þar sem segir m.a.: “Reiknistofa bankanna hefur verið sá aðili sem hefur verið leiðandi í þessari umræðu hér á landi, meðal annars með ráðstefnuhaldi og opinni umræðu um helstu álitamálin. Það er til fyrirmyndar, enda mikið í húfi.” Í þessu stóra verkefni á útskiptum grunnkerfa bankanna hefur Friðrik sýnt fólkinu sínu mikinn stuðning og verið hér öllum stundum til að flýta ákvörðunartöku og styðja fólkið sitt. Hann endaði árið á því að elda sjálfur “Beef Wellington” fyrir þá sem voru á vakt vegna áramótavinnslna. Kynjaskipting hjá RB er einnig með því besta sem sést í upplýsinga- og hugbúnaðageiranum og jafnréttismál í hávegum höfð.
Félag með skýran tilgang
Friðrik hélt ræðu við athöfnina þar sem hann fór yfir hvað þær miklu breytingar sem hafa orðið hjá RB undanfarin ár. Hann sagði þó lykilatriði vera hinn sterka grunn og skýra tilgang sem fyrirtækið byggir á. Hann talaði líka um þá miklu vinnu sem starfsfólk RB hefur lagt á sig til að koma fyrirtækinu á þann stað sem það er í dag. Við hjá RB erum ákaflega stolt af þessum verðlaunum og óskum Friðriki hjartanlega til hamingju.