Fréttir

Fréttatilkynning – Stjórn RB hefur ráðið Ragnhildi Geirsdóttur í starf forstjóra félagsins

Ragnhildur hefur víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi og mikla stjórnunarreynslu. Ragnhildur kemur til RB frá Wow Air þar sem hún starfaði sem aðstoðarforstjóri frá því í ágúst 2017. Þar áður var Ragnhildur framkvæmdastjóri Rekstrar og upplýsingatækni hjá Landsbankanum í fimm ár og forstjóri Promens í rúm fimm ár. Þar áður starfaði Ragnhildur hjá Icelandair/Flugleiðum í sex ár og gegndi stöðu forstjóra í lok þess tíma.

Ragnhildur er verkfræðingur og viðskiptafræðingur að mennt. Hún lauk CS prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1995, MS prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Wisconsin árið 1996 og MS prófi í viðskiptafræði frá sama skóla 1998.

Ragnhildur Geirsdóttir segir: „RB er spennandi fyrirtæki sem á sér langa sögu. Hjá fyrirtækinu starfar hópur af afar hæfu starfsfólki sem verður gaman að vinna með að þeim breytingum sem framundan eru“.

Sævar Freyr Þráinsson stjórnarformaður RB segir: „Ég fagna komu Ragnhildar til RB. Hún er öflugur leiðtogi með víðtæka reynslu sem mun nýtast RB á þeim spennandi tímum sem eru framundan. Fyrirtækið hefur verið að taka miklum breytingum á síðustu árum og munu þær halda áfram enda leikur RB stórt hlutverk í að auka gæði og hagkvæmni í fjármálakerfinu á Íslandi, m.a. með rekstri helstu grunnkerfa fjármálafyrirtækja“.

Ragnhildur mun taka við af Friðriki Snorrasyni sem sagði upp störfum á síðasta ári eftir að hafa starfað hjá fyrirtækinu í tæp átta ár, en á þeim tíma leiddi hann fyrirtækið í gegnum miklar breytingar.

Um RB:

Reiknistofa bankanna er traust og öflugt þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem þróar og rekur hinar ýmsu fjármálalausnir, þar á meðal öll megin greiðslukerfi landsins. Hlutverk RB er að auka hagkvæmni í tæknirekstri íslenskra fjármálafyrirtækja. Þetta gerir fyrirtækið meðal annars með því að bjóða upp á staðlaðar samnýttar fjölbankalausnir auk þess að sinna þróun, viðhaldi og rekstri hinna ýmsu lausna fyrir fjármálafyrirtæki sem og tryggingafélög. Hjá RB starfa margir öflugustu sérfræðingar landsins á sviði upplýsingatækni en starfsmenn eru tæplega 170 talsins.

Frekari upplýsingar veitir:

Sævar Freyr Þráinsson, stjórnarformaður RB, í síma 860-7701.