Fréttir

Framúrskarandi og til fyrirmyndar árið 2021

RB hefur hlotið fjórar viðurkenningar nú í haust sem snúa að rekstri fyrirtækisins og stjórnarháttum það sem af er ári. Í dag tók Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB, við viðurkenningunni Framúrskarandi fyrirtæki 2021. Í síðustu viku var gefið út sérblað Viðskiptablaðsins og Keldunnar um fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri og var RB eitt þeirra.

 

„Við leggjum okkur fram við að hafa grunnstoðir okkar og rekstur fyrirtækisins á þann veg að stjórnendur og starfsfólk geti verið stolt af starfi sínu hjá RB. Núna, árið 2021, erum við svo sannarlega að uppskera vel og fögnum góðum árangri. Allar þessar viðurkenningar eru góð áminning um að halda áfram á þessari vegferð okkar,“ segir Ragnhildur.

 

Framúrskarandi fyrirtæki ársins 2021

Ár hvert vinnur Creditinfo greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitir framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu fyrir árangurinn. Fyrirtækin sem hafa verið valin eiga það sameiginlegt að vera stöndugt fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum.

 

Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri

Sérblað Viðskiptablaðsins og Keldunnar um Fyrirmyndarfyrirtæki kom út í síðustu viku. Tæplega 3% fyrirtækja landsins komast á þann lista og var RB eitt þeirra þetta árið. Uppfylla þarf ströng skilyrði til að komast á listann.

 

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum

Í ágúst hlaut RB nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningin er veitt af Stjórnvísi, Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum var sett á laggirnar til að bæta eftirfylgni og leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Verkefninu er ætlað að veita öllum fyrirtækjum tækifæri til að fá formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda.

 

Græna ljósið

Orkusalan veitir viðurkenninguna Græna ljósið til þeirra fyrirtækja sem nota eingöngu grænt vottað rafmagn. Með þessari viðurkenningu er það staðfest að öll raforkusala til RB er að fullu vottuð og 100% endurnýjanleg.