Fréttir

Brynjar Már, nýr mannauðsstjóri RB

Brynjar Már Brynjólfsson hefur hafið störf sem mannauðsstjóri Reiknistofu bankanna (RB). Brynjar starfaði frá árinu 2015 hjá Origo, fyrst sem ráðgjafi á Viðskiptalausnasviði sem verkefnastjóri umbóta og svo sem mannauðsráðgjafi og staðgengill mannauðsstjóra. Helstu verkefni hans undanfarin ár hjá Origo hafa verið stjórnendaráðgjöf, umsjón með stefnumótun fyrirtækisins og verkefnastjórnun ýmissa verkefna þvert á svið fyrirtækisins.

Brynjar starfaði sem sérfræðingur í mannauðsmálum hjá Landsvirkjun frá 2013 – 2015 og sem sérfræðingur í fræðslumálum hjá Landsbankanum frá 2011 – 2013. Áður starfaði hann hjá Íslandsbanka, ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi með námi árin 2001 – 2011, síðast sem lögfræðingur í Regluvörslu bankans. Þar hafði hann m.a. umsjón með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og gjaldeyrisreglum Seðlabanka Íslands.

Brynjar lauk B.A. gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2006 og M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2009. Hann stundar nú MBA nám við Háskólann í Reykjavík. Brynjar hefur setið í stjórn Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi undanfarin þrjú ár og verið formaður félagsins undanfarin tvö ár.

„Það er ánægjulegt að fá Brynjar til liðs við okkur hjá RB. Brynjar hefur mikla og góða reynslu af mannauðsmálum sem mun nýtast okkur vel. Hjá þekkingarfyrirtæki eins og RB er mannauðurinn mikilvægasta auðlindin og starf mannauðsstjóra því mikilvægur hluti af okkar starfsemi. Ég hlakka til samstarfsins við hann,” segir Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB.