Fréttir
Eitt stærsta upplýsingatækniverkefni RB langt komið
19.04.2021
Eitt stærsta upplýsingatækniverkefni RB langt komið
Um liðna helgi var stór áfangi hjá RB þegar Sopra innlána- og greiðslukerfið var gangsett hjá Arion banka. Óskum við Arion banka til hamingju með innleiðinguna.
Í lok árs er svo stefnt að innleiðingu Sopra hjá sparisjóðunum, Kviku og Seðlabankanum og verður kerfið þá að fullu búið að taka við af eldri innlána- og greiðslukerfum RB. Á þessum tímamótum er rétt að fara aðeins yfir söguna og upphaf verkefnisins með Sopra.
Í aðdraganda þess að RB varð að hlutafélagi árið 2011 var mikil áhersla lögð á að endurnýja þyrfti grunnkerfi RB, kerfi sem þjónað höfðu RB og fjármálamarkaðinum vel á Íslandi í áratugi. Hönnun þeirra og þróun hefur skapað Íslandi mikla sérstöðu í greiðslumiðlun. Rauntímagreiðslumiðlun og kröfupotturinn eru lausnir sem hafa verið nýttar í mörg ár á Íslandi og nokkuð sem enn er víða erlendis unnið að þróun og innleiðingu á.
Upphaf verkefnisins
Verkefnið hófst árið 2012, upphaflega sem samtal um að endurnýja útlánakerfi RB. Verkefnið breyttist svo í það að velja nýtt innlána- og greiðslukerfi fyrir RB. Eftir ítarlega greiningu stóð valið um innlána- og greiðslukerfi á milli SAP, Temenos og Sopra Banking Software. Sopra var m.a. valið vegna stærðar, sem þótti hæfa íslenskum markaði betur en stórfyrirtækin SAP og Temenos.
Eitt af markmiðunum með endurnýjun grunnkerfa RB er að færa þau til nútímans með stöðluðum alþjóðlegum lausnum í stað heimasmíðaðra kerfa. Alþjóðlegar lausnir hraða þróun nýrra fjármálaafurða, sem eykur m.a. tækifæri bankanna til að uppfylla nýjar þarfir markaðarins og samkeppnishæfni. Í heimi stöðugra alþjóðlegra reglugerðabreytinga er líka nauðsynlegt að hafa aðgang að lausnum sem uppfylla slík skilyrði, nokkuð sem var orðið mjög þungt í vöfum í eldri kerfum okkar.
Samstarf RB og Sopra hefur eflst með árunum og Sopra reynst góður samstarfsaðili. Flóknasti hluti verkefnisins fyrir Sopra sneri að vísitölutengingunni á Íslandi og tókst sú útfærsla vel.
Seinkun á innleiðingu
Íslandsbanki og Landsbankinn tóku ákvörðun um innleiðingu Sopra í lok árs 2014. Upphaflega stóð til að báðir bankarnir færu með kerfið í loftið í árslok 2016 en talsverð seinkun varð á innleiðingunni. Landsbankinn fór í loftið í lok árs 2017 og Íslandsbanki tæpu ári síðar, haustið 2018. Margar ástæður liggja þar að baki og mikil þekking hefur safnast innan bankanna í þessum málum. Líklega vegur hvað mest vanmat í upphafi á flækjustigi innan hvers banka og samspil bankanna við kerfin í RB, kerfi sem hafa byggst upp á síðustu áratugum. Í upphafi hamlaði það verkefninu talsvert að rekstur RB er háður skilyrðum frá Samkeppniseftirlitinu og var samstarf aðila því fremur takmarkað í byrjun. Margt hefur áunnist frá þeim tíma í samstarfi á fjármálamarkaði og í dag er sameiginlega unnið markvisst að því að draga úr áhrifum breytinga á áhættu í fjármálakerfinu.
Arion banki tók ákvörðun árið 2018 um að innleiða Sopra og fór kerfið, eins og áður segir, í loftið um síðustu helgi. Að baki innleiðingunni hjá Arion banka liggja um 45 þúsund vinnustundir innan RB og stærstur hluti starfsmanna RB hefur á einhverjum tímapunkti tekið þátt í verkefninu.
Eitt stærsta upplýsingatækniverkefnið
Sopra innleiðingin er eitt af stærri upplýsingatækniverkefnum sem unnin hafa verið á Íslandi á síðustu árum. Í ferlinu hefur RB öðlast mikla reynslu af innleiðingu flókinna kerfa sem krefjast mikillar samvinnu margra. Lykilatriði í þessari vinnu hefur verið gott samstarf ólíkra aðila á fjármálamarkaði. Vandaður undirbúningur og öflugar prófanir hafa þar skipt sköpum. Í hvert skipti framkvæmdu allir bankarnir fjölmargar undirbúningskeyrslur með ítarlegri áætlun í svokallaðri keyrslubók til þess að tryggja sem besta og hnökralausasta gangsetningu.
Með innleiðingu Arion á Sopra innlána- og greiðslukerfinu hefur verið stigið mikilvægt skref í endurnýjun innviða fjármálakerfisins sem eykur samkeppnishæfni þess til lengri tíma.