Fréttir
40 ára gamalli sögu að ljúka
24.02.2022
Íslenska bankakerfið keyrir nú allt í Sopra
Í takt við tímann og tæknibreytingar höfum við hjá RB unnið hörðum höndum að innleiðingu Sopra sem er nýtt innlána og greiðslukerfi sem tekið hefur verið í notkun hér á landi. Verkefnið hófst árið 2012 og lauk um liðna helgi þegar greiðslukerfið var gangsett hjá Seðlabanka Íslands, Kviku og Sparisjóðnum. Með þessum lokaáfanga lýkur 40 ára gamalli sögu eldri innlána og greiðslukerfa landsins.
Að baki innleiðingunni liggja um 277.000 vinnustundir í vinnuframlagi starfsmanna RB, sem samsvarar rúmlega 39 þúsund vinnudögum. Áður voru Landsbanki, Íslandsbanki og Arion banki komnir í nýju lausnirnar frá Sopra.
Á þessum tímamótum er rétt að fara aðeins yfir söguna og upphaf verkefnisins með Sopra
Verkefnið hófst þegar RB var gert að hlutafélagi 15. desember 2010 en í hluthafasamkomulaginu var eitt af viðfangsefnum komandi ára að endurnýja innviði RB. Verkefnið hófst þó smærra í sniðum eða sem greining á endurnýjun á útlánakerfi fyrir íslenska fjármálamarkaðinn. Það tók fljótt vinkil beygju yfir í að velja nýtt innlána- og greiðslukerfi.
Horfa þurfti til þess að kerfið sem yrði fyrir valin gæti aðlagast vel íslenskum aðstæðum og þá sérstaklega verðtryggingunni. C&W/ Sopra kerfið var stóðst þær kröfur og voru fjölmargar ástæður að baki. Kerfið býður upp á fjölbankalausn sem hentar íslensku fjármálakerfi vel, kostnaðurinn var hagstæður og Sopra þótti hæfilega stórt fyrirtæki. Ekki skemmdi fyrir að þau höfðu mikinn áhuga á að vinna með okkur.
RB skrifaði undir samstarfsssamning við Sopra í mars 2013 og var þá stefnt á að klára innleiðingu á innlána- og greiðslukerfum auk útlánakerfis fyrir lok árs 2017. En eins og í öllum góðum vegferðum þá þarf að læra margt á leiðinni og því lengdist þessi tími aðeins.
Landsbankinn og Íslandsbanki hófu fyrstir banka innleiðinguna og fór Landsbankinn í loftið í lok árs 2017 og Íslandsbanki síðan í loftið haustið 2018. Um það leyti skrifaði Arion banki undir samning um innleiðingu og fór svo í loftið vorið 2021. Um síðustu helgi lauk svo þessari vegferð þegar Sparisjóðirnir, Kvika og Seðlabankinn fóru í loftið.
Innleiðing Sopra er eitt stærsta innleiðingar verkefni á íslenskum upplýsingatæknimarkaði síðustu ár. Fagmennskan hjá starfsfólki RB hefur verið ótrúleg og þegar horft er yfir farinn veg þá getum við verið stolt af þessari vegferð. Þetta hefur verið mjög farsælt verkefni, þó svo að það hafi verið stórt, flókið og umfangsmikið á köflum.